FRÉTTIR
27.12.02
 
FRÉTTIR FLUTTAR

FRÉTTIR eru fluttar af blogginu yfir á http://www.frettir.com.

Velkomin(n) í heimsókn.
23.12.02
 
BLESS BLOGSPOT, HALLÓ FRÉTTIR.COM

Dagur 191 í bloggi.

FRÉTTIR renna nú sitt skeið á enda á blogspot og flytja sig á nýtt heimil: http://www.frettir.com. Lesendur eru boðnir velkomnir í ný heimkynni. Hér birtist síðasti pistillinn á blogspot og héðan í frá verða FRÉTTIR á http://www.frettir.com.

Það er sama hvert maður fer, það er nóg að segja "Ingibjörg Sólrún" til að hleypa öllu í bál og brand. Skiljanlega. Vinstri Grænir og Framsóknarmenn eru sárir vegna svikanna, Íhaldsmenn eru glaðir vegna upplausnarinnar og Samfylkingarmenn bregðast reiðir við vegna þess að þeir vita upp á sig sökina. Og hér skiptast menn eftir pólitískum línum í hvort borgarstjóri sé að svíkja gefin loforð eða hvort það sé ósköp eðlilegt fyrir stjórnmálamann að skipta um skoðun og ómerkja fyrri yfirlýsingar vegna "breyttra aðstæðna."

Fréttablaðið segir í dag að Ingbjörg Sólrún verði að svara í dag hvort hún ætli að hætta sem borgarstjóri eða hætta við framboð til Alþingis. Spjallað er við hina og þessa, en sýnu verst er þó að sjá vitnað í formann VG í Reykjavík. Hann heitir nefnilega Steingrímur Ólafsson, en það skal ítrekað að þessi Steingrímur kemur ekki nálægt FRÉTTUM. Hvar er mannanafnanefnd þegar maður á henni að halda? Nafnabreytingu NÚNA!!!

Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi þingmaður segir í DV í dag að útspil Ingibjargar Sólrúnar sé sögulegur afleikur. Hún hafi ekki aðeins brotið gefin loforð heldur einnig mögulega gert út af við R-listann. Orðrétt segir Hjölli:

"Hver getur treyst stjórnmálamanni til frekari forystu sem gengur jafn rækilega á bak orða sinna?"

Ja, hvaða stjórnmálamaður hefur ekki gengið á bak orða sinna, spyr sá sem ekki veit? En...sumir héldu jú að Ingibjörg Sólrún væri undantekningin.

Fjölmiðlar eru nú hver á fætur öðrum að spyrja verslunarkjarnana þrjá; Laugaveg, Kringluna og Smáralind, hvernig jólaverslunin hafi verið. "Ósvikin gleði" vegna mikillar verslunar segja Smáralindarmenn, "rífandi sala" segja Laugavegskaupmenn og "kaupmenn sáttir" segja Kringlumenn. S.s. allir sáttir og allir að græða. Hinkrum í nokkra daga og hlustum svo á barlóminn í janúar þegar kassinn verður gerður upp.

Sigurgeir á afmæli á morgun. Ég hef alltaf vorkennt fólki sem á afmæli á jólum og um áramót. En til hamingju samt!

Lesendur FRÉTTA sakna sjónvarpslausra fimmtudaga. Þetta er niðurstaðan úr könnun FRÉTTA, þar sem spurt var hvers lesendur söknuðu. 35% söknuðu sjónvarpslausra fimmtudaga, 30% Hemma Gunn, 15% Óla blaðasala, 10% ekki neins og 5% sakna þess að fá hvergi Spur og sama hlutfall saknar Silla og Valda. Enginn saknar hins vegar Stjörnubíós, Brimklóar eða geimverunnar Taks.

Fyrirsögn dagsins: Hrifla.is: "Pólitísk skuggajól."

Síðan hans Jóa sýnir nú að 44 dagur séu síðan ég átti afmæli og 321 dagur sé í næsta afmæli mitt.

Ég minni á gestabókina á síðunni minni. Nýjasta innleggið er frá Guðnýju Láru. Hún gerir að umtalsefni spurningu FRÉTTA varðandi það að nú stendur til að sýna sérstakt kvennaspaug og því spurðu FRÉTTIR hvort það væri eitthvert sérstakt karlaspaug í sjónvarpinu núna.

"Sko... hugsaðu það þannig, ef að það væri spaugstofuþáttur með konum (og allt var öðruvísi)... þá hefðir e.t.v. komið "Karlaspaug í sjónvarpinu næsta haust!" :) En mér finnst soldið asnalegt að flokka þetta svona... og þetta er ekkert merkilegra þó þetta séu bara kjellingar með þetta :)"

Þakka sendinguna Guðný Lára. Og þetta er rétt hjá þér. Það er ekkert merkilegra spaugið þó það séu karlar annars vegar og konur hins vegar. Gott grín er ekki kynjabundið.

Ég bendi áhugamönnum um mannanöfn á að þeir geta sent mér póst á: saevarr@hotmail.com. Sendi allan minn póst á Mannanafnanefnd í gegnum það tölvupóstfang, bara til að leyfa nefndarmönnum að hafa gaman af lífinu. Og það virkaði, því nú kallar formaðurinn mig Mr Sævarr, þó nefndin leyfi ekki nafnið ennþá.

Orð dagsins: Flúskrast. Orðabók Menningarsjóðs segir: Tuskast, fljúgast á.

FRÉTTIR þakka fyrir góðar stundir á blogspot og bjóða góða nótt með því að minna á nýja heimilisfangið: http://www.frettir.com



Powered by Blogger